Ekki tímabært að Össur fari til Brussel

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálanefnd Alþingis telja ekki tímabært að utanríkisráðherra Íslands taki þátt í ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins á þriðjudag þar sem hefja á formlega aðildarviðræður Íslendinga við Evrópusambandið.

Utanríkismálanefnd  átti í morgun fund með Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra, og þar lögðu sjálfstæðismennirnir Ragnheiður Elín Árnadóttir og Sigurður Kári Kristjánsson fram bókun þar sem lýst er því mati, að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu sé andvana fædd og einungis einn stjórnmálaflokkur á Alþingi sé einhuga um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

„Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga sem mælir fyrir um að aðildarumsóknin verði dregin til baka. Þá liggur fyrir að annar ríkisstjórnarflokkurinn, Vinstrihreyfingin-grænt framboð, mun á haustdögum marka afstöðu sína til þess hvort draga skuli aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka eða ekki.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálanefnd telja brýnt að framkomin þingsályktunartillaga fái umræðu og afgreiðslu á Alþingi áður en aðildarviðræður við Evrópusambandið hefjast. Þá telja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins nauðsynlegt að afstaða Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs til þess hvort draga beri aðildarumsóknina til baka liggi fyrir áður en slíkar viðræður eiga sér stað.

Fyrr verður ekki upplýst hvort pólitísk forysta er fyrir málinu á Íslandi.

Í ljósi þess telja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að þátttaka utanríkisráðherra Íslands á ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins sé ekki tímabær og að frekari viðræður skuli ekki fara fram fyrr en ofangreind álitaefni hafa verið til lykta leidd," segir í bókun sjálfstæðismannanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert