Erfið nótt í Laugardalslaug

Sundvaka í Laugardalslaug gekk örðuglega í nótt en margmenni vildi komast í sund eftir að skemmtistöðum borgarinnar var lokað klukkan eitt

 Bjarni Kjartansson hjá Laugardalslaug segir nóttina hafa verið strembna. „Þetta gekk, því miður, dálítið öðruvísi í nótt en fyrri nóttina. Þegar skemmtistöðum er lokað um eitt leytið er fólk bara ekki búið að fá nóg og reynir að komast inn með öllum mögulegum hætti. Löngunin var sterk og það reyndi að klifra hér yfir girðingar,“ segir Bjarni sem kveður átökin hafa tekið sinn tíma.

„Við vorum með mjög vel mannað og sterkt lið hjá okkur en það er þannig að þegar holskefla kemur af fólki sem búið er að djamma dálítið þá þótti því þetta dýrt og vildi komast ofan í hina leiðina.“

Bjarni segir það ábyrgð laugarinnar að hleypa ekki ölvuðu fólki til sunds. „Því miður er það svo að hér á Íslandi er vínmenningin þannig komin að það er ekki hægt að treysta fólki til að hafa áfengi nálægt svona löguðu,“ segir Bjarni sem leggur áherslu á að starfsfólk laugarinnar hafi staðið sig eins og hetjur í átökunum.

 „Fólkið okkar stóð sig með mikilli prýði að halda skikk hér innandyra og varna því að hér yrðu meiðsl. Öryggisgæsla var í fínu lagi en þetta var miklu meira álag í nótt heldur en var áður. Þessi menning okkar er ekkert á mjög háu plani.“

Þeir sem voru ofan í lauginni voru þó langflestir allsgáðir að sögn Bjarna. „Fólki okkar tókst að halda hinum frá en það er leiðinlegt þegar sundgestir verða fyrir svona ónæði. Ég legg áherslu á það að öryggismál voru aldrei í neinni hættu. Starfsfólkið okkar er vant því að takast á við gesti með alls konar þarfir,“ segir Bjarni en Securitas var einnig á staðnum og þeir þéttu raðir sínar þegar næturgestirnir fóru að færa sig upp á skaptið.

Bjarni telur sama ástand ekki skapast í nótt vegna þess að fólk verði einfaldlega of þreytt þegar það hefur stundað skemmtistaði bæjarins langt fram eftir nóttu. „Fólk var einfaldlega ekki búið að fá nóg af djamminu klukkan eitt,“ segir Bjarni sem kveður þetta vera úrlausnarefni frekar en vandamál.
Tugir sundlaugargesta lágu í heitu pottunum í Laugardalslaug á miðvikudagskvöld.
Tugir sundlaugargesta lágu í heitu pottunum í Laugardalslaug á miðvikudagskvöld. Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert