Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, segir Ragnheiði Elínu Árnadóttur og Sigurð Kára Kristjánsson ganga erinda landsfundar Sjálfstæðisflokksins þegar þau gagnrýni Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fyrir að sækja ríkjaráðstefnu ESB vegna aðildarumsóknar Íslands.
„Þetta er í samræmi við ferlið eins og Alþingi samþykkti í fyrra, að fara í þetta í ferli. Það er skylda framkvæmdavaldsins að vinna í samræmi við það. Þegar leiðtogaráð Evrópusambandsins er búið að fallast á að hefja aðildarviðræður við Ísland að þá er það næsta skref að þessi ríkjaráðstefna er haldin. Segja má að á ráðstefnunni sé almennri afstöðu beggja aðila lýst.
Hinar eiginlegu viðræður hefjast ekki strax. Það er talsverð undirbúningsvinna eftir áður en að því kemur. Það fer fram rýnivinna á löggjöf okkar og ESB og á einstökum málasviðum. Þannig að þetta er hluti af því ferli að halda þessa ríkjaráðstefnu. Það er líka í samræmi við það veganesti sem Alþingi gaf með þingsályktuninni í fyrra að haft væri náið samráð við utanríkismálanefnd.“
- Þú telur ekki óviðeigandi að stíga frekari skref á þessari braut í ljósi þess að lykilfólk í þínum flokki er andvígt inngöngu?
„Alls ekki. Alþingi hefur tekið ákvörðun, lýðræðislega ákvörðun. Það væri mjög undarlegt ef framkvæmdavaldið væri ekki að vinna eftir því sem Alþingi hefur falið því að gera.“
- Hvernig svararðu þá gagnrýni Ragnheiðar Elínu og Sigurðar Kára?
„Mér sýnist hún aðeins vera sett fram til að uppfylla þær kröfur sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins leggur á sína þingmenn í þessu máli. Ég er ekki bundinn af landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið afstöðu og þau eru að fylgja henni eftir.
Það er samþykkt Alþingis sem gildir í þessu máli. Það er samþykkt Alþingis að fara í þessar viðræður og það er hún sem gildir. Það hefur engin önnur ákvörðun verið tekin. Utanríkisráðherra er að uppfylla skyldur sínar samkvæmt því, meðal annars með því að hafa samráð við utanríkismálanefnd.
Ef þingmennirnir vilja beita sér fyrir því að viðræðum verði hætt þurfa þeir að gera það með viðeigandi hætti en ekki með því að stöðva það ferli sem er í gangi í samræmi við þingsályktun Alþingis. Það er þá gert með því að koma fram nýja tillögu. Það liggur í sjálfu sér fyrir tillaga um að hætta viðræðum en það hefur engin afstaða verið tekin til hennar í þinginu,“ segir Árni Þór Sigurðsson.