Kallar á nýbyggingar

Þorleifur telur markaðinn kalla á húsbyggingar á næsta ári.
Þorleifur telur markaðinn kalla á húsbyggingar á næsta ári. mbl.is/Rax

„Þessar tölur koma mér ekki á óvart. Þetta hefur verið stigvaxandi í allan vetur með tilheyrandi sveiflum, upp og niður,“ segir Þorleifur St. Guðmundsson, fasteignasali hjá Eignamiðlun, um nýjar tölur um veltu á fasteignamarkaði. Þorleifur telur markaðinn senn kalla á nýbyggingar.  

„Þessar tölur eru alveg í takt við það sem ég er að upplifa á markaðnum,“ segir Þorleifur og vísar til þess að 73 kaupsamningar voru þinglýstir á höfuðborgarsvæðinu í vikunni. Höfðu þeir þá ekki verið jafn margir síðan í fyrstu vikunni í október 2008. 

- Hvað ertu að upplifa? 

„Ég er upplifa það að það er töluvert meira að gera núna en verið hefur. Ég er að upplifa það að markaðurinn er vaxandi.“

- Áttu von á að sú uppsveifla haldi áfram eða telurðu að hún sé tímabundin?

„Ég á frekar von á því að þetta aukist heldur en hitt, að fasteignamarkaðurinn verði líflegri frekar en að hann dofni.“

- Hvaða forsendur gefurðu þér í því efni?

„Það er að hluta til uppsöfnuð þörf á markaðnum. Undanfarin misseri hefur verið lágdeyða á honum. Veltan er að aukast enda hefur undirliggjandi þörf byggst upp á undanförnum þremur árum.“

- Það er mikið af óseldu, hálfkláruðu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Hvenær sérðu fyrir þér að það þurfi að fara að byggja meira til að anna eftirspurn?

„Ég vísa í að það voru mun fleiri íbúðir óseldar árið 1997 þegar markaðurinn tók kipp og það tók innan við ár að hreinsa það upp. Þannig að ég held að það skapist fljótlega á næsta ári þörf fyrir því að menn þurfi að fara að byrja að byggja því það tekur ákveðinn tíma að ljúka við byggingu eftir að hún hefst.“

- Ertu því að segja að þið sjáið merki um að kreppunni sé að ljúka?

„Já. Ég held að við séum á leiðinni upp.“

Þorleifur St. Guðmundsson fasteignasali.
Þorleifur St. Guðmundsson fasteignasali.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert