Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú nágrannaerjur í Aratúni í Garðabæ en ásakanir hafa komið fram um að ofbeldi og hótunum hafi verið beitt. Deilan hefur staðið á milli í nokkur ár og mun upphaflega hafa snúist um bílskúr sem stóð til að byggja. Nú hafa hins vegar verið lagðar fram nokkrar kærur um líkamsárásir og fleiri brot.
Meðal annars hefur verið fjallað um málið á bloggsíðum og hefur ein slík, þar sem greint er ítarlega frá sjónarmiðum annarrar fjölskyldunnar, gengið eins og eldur í sinu á netinu. Er þar meðal annars því haldið fram, að sprautað hafi verið piparúða í augu 2 ára gamals barns.
Ólafur G. Emilsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarsjóri á lögreglustöðinni í Hafnarfirði, segir rannsóknina í eðlilegum farvegi. „Við erum búin að taka skýrslur af þessu fólki öllu saman. Við erum að taka skýrslur af vitnum og það er búið að óska eftir gögnum frá slysadeild og víðar,“ segir Ólafur sem kveður málið umfangsmikið og hafi tekið mikinn tíma lögreglunnar síðustu dagana.
„Spurningin er alltaf sú hvort þetta er eitthvað mál eða eitthvað annað. Það verður að fá botn í það,“segir Ólafur.