Slökkviliðsmenn ætla að skila boðtækjum slökkviliðsins þegar átta klukkustunda verkfall þeirra hefst í dag og hyggjast ekki taka við þeim aftur fyrr en gerður hefur verið nýr kjarasamningur.
Launanefnd sveitarfélaga telur að slökkviliðsmönnum beri skylda til að bera boðtækin á sér.
Slökkviliðsmenn bera boðtækin á sér til þess að hægt sé að kalla út meira lið þegar stórbrunar verða, eða önnur slík atvik koma upp. „Við skilum boðtækjunum í fyrramálið og þá verður slökkviliðið að treysta á þá sem eru á vakt,“ sagði Finnur Hilmarsson, varaformaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, við Morgunblaðið í gær.