Slökkviliðsstjórinn Jón Viðar Matthíasson segir að dagurinn hafi gengið ágætlega hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, en átta klukkustunda verkfalli slökkviliðsmanna lauk nú klukkan 16. Dagurinn hafi verið mjög rólegur og ekkert óvænt hafi komið upp.
Jón Viðar telur líklegt að fjölmiðlaumfjöllun undanfarna daga hafi haft sín áhrif, þ.e. menn hafi verið undir þetta búnir.
Þá bendir hann á að það sem hafi þurft að bíða í dag hafi þolað átta tíma bið. Hann hefur hins vegar meiri áhyggjur af næsta verkfalli, sem eigi að standa í 16 klukkustundir. Ljóst sé að margt varðandi sjúklinga muni ekki þola svo langa bið.
„Maður fann það alveg á mönnunum að þeir voru virkilega að vanda sig, að enginn skyldi hljóta neinn skaða af þessu verkfalli. Það er aðdáunarvert hvernig þetta féll alltaf sjúklingunum í hag varðandi allar boðanir,“ segir Jón Viðar í samtali við mbl.is.
Alls voru 22 sjúkraflutningar á milli klukkan 8 og 16 í dag. Jón Viðar segir að á venjulegum degi sé verið að flytja á bilinu 55 til 75 sjúklinga, en hann miðar þá við 12 tíma vakt. Hann bendir hins vegar á að flestir sjúkraflutningar eigi sér stað um miðjan dag. „Þetta er því óvanalega rólegur dagur,“ segir Jón Viðar.
Hann bendir hins vegar á að það hafi verið mikið að gera í gær. Þá hafi menn væntanlega verið að vinna sér eitthvað í haginn, t.d. varðandi flutning á sjúklingum á milli sjúkrastofnana.