Samningsvextir standa ekki

Lögmenn skoða dóm Héraðsdóms Reykjavíkur.
Lögmenn skoða dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. mbl.is/Eggert

Samningsvextir samninga um gengistryggð lán standa ekki óhaggaðir án gengistryggingar. Er þetta niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Lýsingar gegn skuldara gengistryggðs bílaláns. Fallist var á kröfur Lýsingar um breytingu á vaxtakjörum vegna brottfalls gengistryggingar í samræmi við óverðtryggða vexti Seðlabankans.

Krafðist skuldari þess að í lágir samningsvextir skyldu standa óbreyttir í kjölfar dóms Hæstaréttar þann 16. júní um ólögmæti gengistryggingar. Þá tók Hæstiréttur ekki afstöðu til vaxtaákvæða og endurútreiknings lána af réttarfarsástæðum.

Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið mæltust til þess í kjölfar dóms Hæstaréttar að miðað yrði við óverðtryggða vexti Seðlabankans í uppgjöri á gengistryggðum lánum.  

Aðaldómkrafa Lýsingar var að miðað yrði við að lánið væri verðtryggt og bæri auk þess vexti samkvæmt gjaldskrá Lýsingar á hverjum tíma. Fyrsta varakrafa var um að lánið bæri verðtryggða vexti samkvæmt ákvörðun Seðlabankans. Önnur varakrafa byggði á því að um óverðtryggða kröfu í íslenskum krónum hafi verið að ræða og væru vextir af samningsfjárhæð þá miðaðir við óverðtryggða vexti samkvæmt gjaldskrá Lýsingar. 

Þriðja varakrafan var um að höfuðstóll lánsins beri svonefnda Reibor vexti auk umsamins 2,9% álags.

Fjórða varakrafan, sem dómurinn féllst á, var um að miðað verði við að samningsfjárhæðin beri óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands og byggði á því að samningurinn geri ráð fyrir skyldu til greiðslu vaxta.

Dómur Héraðsdóms

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert