Náist samkomulag milli lífeyrissjóðanna og ríkisins um fjármögnun stórra framkvæmda verður ráðist í breikkun Suðurlandsvegar, Vesturlandsvegar og Reykjanesbrautar á köflum sem enn eru einbreiðir.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við Suðurlandsveg geti skapað um 400-500 ársverk og framkvæmdir við Vesturlandsveg um 80-90 ársverk. Enn er ekki ljóst hversu mikla atvinnu breikkun Reykjanesbrautar gæti skapað.
Enn er ekki ljóst hvað verður um samgöngumiðstöðina umdeildu sem rísa á í Vatnsmýrinni. Framkvæmdir áttu að hefjast í sumar og talið var að þær myndu skapa um 80-90 störf. Ný borgarstjórn hefur þó enn ekki tekið ákvörðun um að hefja kynningarferli á framkvæmdinni og þar strandar málið nú. Hvorki náðist í forsvarsmenn nýs meirihluta í gær né formann eða varaformann skipulagsráðs Reykjavíkur og því ekki ljóst hvenær ákvörðun verður tekin um málið, að því er segir í Morgunblaðinu í dag.