Félagsmenn í Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hófu verkfall klukkan 8 til að leggja áherslu á kjarakröfur sínar. Slökkviliðsmenn skiluðu í morgun boðtækjum slökkviliðsins og hyggjast ekki taka við þeim aftur fyrr en gerður hefur verið nýr kjarasamningur.
Þá skiluðu slökkviliðsmenn töskum með fullkomnum búningum sínum og hjálmum sem þeir hafa heima við til að klæðast þegar þeir eru kallaðir út.
Inga Rún Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Launanefndar sveitarfélaga, segir að nefndin telji það andstætt lögum að slökkviliðsmenn skili boðtækjunum. Spurð hvort gerðar verði athugasemdir við það segir hún að málið verði rætt við slökkviliðsmenn í dag og vonast til að sátt verði um málið.
Slökkviliðsmenn bera boðtækin á sér til þess að hægt sé að kalla út meira lið þegar stórbrunar verða, eða önnur slík atvik koma upp.
Verkfallið stendur frá 8 til 16 og vegna þess raskast flug til Akureyrar og flutningar sjúklinga milli stofnana, auk þess sem slökkviliðsmenn sinna ekki útköllum sem ekki eru bráðnauðsynleg.