Afstaða VG til ESB óbreytt

Fánar ESB blakta í Brussel.
Fánar ESB blakta í Brussel. Reuters

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, kannast ekki við að flokksbræður sínir séu opnari gagnvart ESB-umsókninni en áður. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur sem kunnugt er lýst því yfir að stuðningur við aðild á Alþingi hafi aukist.

Þróunin fremur í gagnstæða átt 

- Hafa einhverjar breytingar orðið innan þinna herbúða gagnvart Evrópusambandsaðild? 

„Ekki er mér kunnugt um það. Maður hefur nú frekar séð hið gagnstæða vera að birtast í skoðanakönnunum. Varðandi þingið og flokkana að þá held ég að allavega hvað okkur snertir sé ekki tilefni til að lesa grundvallarbreytingar í okkar afstöðu.

Ég bendi nú á síðasta flokksráðsfund þar sem hnykkt var á því hver okkar grundvallarafstaða væri í þessu máli. Þannig að ég hef enga ástæðu til að ætla að það hafi orðið nein breyting þar á hvað okkur varðar. Ég hef enga þingmenn heyrt tjá sig á nýjan hátt um það mál nema þá frekar að það væri í hina áttina. Grundvallarafstaða okkar er óbreytt. Við höfum ekki talið að það þjónaði hagsmunum Íslands að ganga í Evrópusambandið.“

Tveir aðskyldir hlutir 

Aðspurður um það pólitíska stöðumat Össurar að Sjálfstæðisflokkurinn sé að einangrast vegna andstöðunnar við aðild svaraði Steingrímur svo:

„Það er tvennt hér á ferð sem menn verða að aðgreina. Það er annars vegar grundvallarafstaða flokkanna og hins vegar hugsanlega mat manna á stöðunni hvað varðar aðildarviðræðurnar og kröfuna um að draga umsóknina til baka. Þetta eru auðvitað tveir hlutir.

Ég veit ekki um hvort Össur er að ræða og hvort hann sé blanda mati sínu á grundvallarafstöðu flokkanna og spurningunni um meðferð aðildarumsóknarinnar saman.

Sjálfstæðisflokkurinn er að ég best veit eini flokkurinn sem hefur beinlínis ályktað að það eigi að draga umsóknina til baka. Aðrir flokkar hafa, að mér vitanlega, ekki afgreitt það með flokkslegum hætti, þó vissulega séu þau sjónarmið uppi víðar, samanber tillögu um það sem liggur fyrir þingi.“

Óþarft að fylgja Össuri eftir 

- Hvað segirðu um það sjónarmið að fulltrúi VG beri að fara með Össuri á ríkjaráðstefnuna á þriðjudaginn?

„Málefni Íslands er hálftíma atriði á þessum fundi þar sem menn flytja fyrirframsamdar ræður. Þetta er aðeins pro forma athöfn og engar viðræður eða fundir nema tvíhliða fundir ráðherra eins og gengur.

Sjálfur atburðurinn er mjög stuttur. Ég veit það vegna þess að við höfum rætt það í nefndum um Evrópumál og farið sameiginlega yfir áherslur Íslands þar og það sama mun utanríkisráðherra hafa gert með utanríkismálanefnd. Það er ekki tilefni til að senda út liðssveit eins og að þarna væri verið að setjast að samningaborði. Það er seinni tíma mál,“ segir Steingrímur J. Sigfússon.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna og fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna og fjármálaráðherra. Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka