Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra gefur lítið fyrir fregnir af sundrungu innan ríkisstjórnarinnar vegna málefna Magma Energy. Eins og mbl.is greindi frá í morgun þá ræddi þingflokkur VG málið í gær og bárust þær fréttir af fundinum að þar hefði verið lagt til að slíta bæri samningum við fyrirtækið.
„Ég hef ekki heyrt af þessu frá þeim, enda erum við í góðu samstarfi um það hvernig við ætlum að vinna þetta mál áfram, báðir flokkarnir. Það er einhver draugasaga hér á ferðinni um að það sé verið að stilla okkur upp við vegg,“ segir Katrín við mbl.is.
Katrín segir villandi að tala um að rifta eigi samningnum við Magma.
„Ríkið er auðvitað ekki aðili að þessum samningi, svo bein riftun er ekki inni í myndinni. Hins vegar er spurning um hvernig við viljum sjá fyrirkomulagið til framtíðar litið og að því erum við að vinna.“
Ráðherra kveðst ekki vita hvort fregnir af fundinum séu réttar.
„Ég veit ekki hvað þau ræða á sínum fundum, en það er ekki búið að setja okkur neina úrslitakosti. Það er gríðarlega ofsagt. Við erum að vinna í góðu samstarfi, enda er ekkert gríðarlega langt á milli þessara flokka í þessum málaflokki eins og málað hefur verið upp,“ segir Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra.