Víða um land er fjölmennt á tjaldsvæðum og gott veður leikur við landann. Helgin hefur liðið áfallalaust víðast hvar og lítið borið á hefðbundnum vandamálum sem eiga það til að fylgja útihátíðum eins og þeim sem haldnar eru þessa helgina.
Á Borgarfirði Eystra hafa um 1500 manns komið sér fyrir á tjaldsvæðum vegna tónlistarhátíðarinnar Bræðslunnar, sem lýkur í kvöld. Um 600 manns eru stödd á Mærudögum á Húsavík. Á Fáskrúðsfirði, Grundarfirði og Hvammstanga eru einnig útihátíðir.
Umferð hefur gengið vel fyrir sig um allt land og aðeins örfáir sektaðir fyrir að aka á ólöglegum hraða. Einn bíll valt um hádegisbil skammt hjá Búðardal, en enginn slasaðist.
Í Vestmannaeyjum var brotist inn í rútu á aðfararnótt föstudags og talsverð skemmdarverk unnin á innviðum hennar. Hvorki er víst hvort um þjófnað sé að ræða né hvert tilefni skemmdanna sé. Lögreglan í Vestmannaeyjum óskar eftir vitnum vegna málsins.
Laust fyrir sex leytið í kvöld var lögreglan í Reykjanesbæ kölluð út eftir að þjófnaður hafði verið framinn í Sandgerði. Verðmætum var stolið úr fiskvinnslu í bænum, en það er enn óljóst hversu miklu.