Þúsundir manna eru nú saman komnir á Mærudögum á Húsavík en þar hefur veðrið leikið við gesti. Að sögn lögreglunnar á staðnum bar mikið á ölvun í nótt en hún tekur sérstaklega fram að engin leiðindaatvik hafi komið upp og hátíðin verið laus við áflog.
Mærudagar eru fjölskyldu- og menningarhátíð. Dagskráin stendur yfir frá fimmtudagskvöldi til sunnudagseftirmiðdags.
Af mörgum viðburðum má nefna listsýningar, tónlist, golfmót, gönguferðir og sjóstangveiði en leitast er við að bjóða upp á afþreyingu fyrir alla fjölskylduna.