Ómar orðinn skuldlaus

Ómar Ragnarsson tekur við afmælisgjöfinni frá Friðriki Weisshappel.
Ómar Ragnarsson tekur við afmælisgjöfinni frá Friðriki Weisshappel. mbl.is/Jakob Fannar

Fréttamaðurinn og skemmtikrafturinn Ómar Ragnarsson veitti í dag ávísun upp á tæpar þrettán milljónir viðtöku. Upphæðin er ávöxtur söfnunar sem var efnt til í tilefni sjötugsafmælis Ómars, en hann hefur átt við skuldavandamál að stríða upp á síðkastið.

Um þrjú hundruð manns söfnuðust saman fyrir utan Café Flóru í Grasagarðinum í Laugardal hvar ávísunin var afhent. Söfnunin fór fram á Facebook og lögðu um átta þúsund einstaklingar hönd á plóg. Þar fyrir utan tóku fyrirtæki einnig þátt og lögðu fram myndarlegar upphæðir til handa Ómari.

Heildarupphæðin nemur 12.649.000 íslenskum krónum og er að sögn Friðriks Weisshappel, hvatamanns söfnunarinnar, nóg til að greiða upp skuldir Ómars og gott betur.

Friðrik segir að enn streymi fé inn á söfnunarreikninginn. Ómar hefur hins vegar sagt að héðan í frá renni allt söfnunarfé til líknarmála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert