„Nei. Ég hef nú ekki skynjað það. Það er tiltölulega nýlega búið að leggja fram þingsályktunartillögu um að draga aðildarumsóknina til baka,“ segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, aðspurður um þau ummæli Össurar Skarphéðinssonar að stuðningur við ESB-aðild fari vaxandi á Alþingi.
„Við höfum ekki rætt þetta mikið við aðra þingmenn og þetta hefur ekki að mér er kunnugt um verið mikið rætt á meðal þingmanna. Eins og þetta snýr að mér og okkur er þetta mál í ákveðnum farvegi. Umsóknin er þarna. Svo verður tekið á þeirri útkomu þegar þar að kemur.
Birgitta [Jónsdóttir, þingmaður í Hreyfingunni] er á móti umsókninni sem slíkri og vill að hún verði dregin til baka. Hvorki ég né Margrét [Tryggvadóttir, þingmaður í Hreyfingunni] gerum athugasemdir við umsóknina sem slíka.
Þegar við greiddum atkvæði á móti aðildarumsókninni á sínum tíma var það út af öðru en að við væru endilega á móti umsókninni. Það var út af tengingunni við Icesave,“ segir Þór og bætir því við að afstaða þeirra Margrétar sé að „bíða og sjá hvað komi út úr pakkanum“.