Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út síðdegis í dag vegna leka í gömlum trébáti við Ægisgarð við Reykjavíkurhöfn. Dælur bátsins höfðu ekki undan og fór svo að hann sökk áður en slökkviliðið fékk nokkru við ráðið. Báturinn var kominn úr notkun.
Að sögn slökkviliðsins mættu slökkviliðsmenn með stórar og öflugar dælur.
Báturinn hafi hins vegar verið kominn á kaf og því hafi verið orðið of seint að freista þess að forða honum frá því að sökkva.
Er búist við að báturinn verði hífður upp á næstu dögum.
Af öðrum verkefnum slökkviliðsins í dag má nefna að hún var kölluð út í olíuhreinsun eftir umferðaróhapp við Grettisgötu í miðbæ Reykjavíkur um fimmleytið í dag.