Farið að ganga á sandsílastofninn

Um borð í Dröfn RE í sandsílaleiðangrinum.
Um borð í Dröfn RE í sandsílaleiðangrinum. mbl.is/Hafro.is

Farið er að ganga á sandsílaárganginn frá 2007, sem hefur verið uppistaðan í sandsílastofninum undanfarin þrjú ár. Í fyrra fannst talsvert magn af seiðum en þau eru ekki að skila sér í stofninn nú sem eins árs síli, í þeim mæli sem væntingar stóðu til. Þetta er meðal niðurstaðna úr 11 daga sandsílaleiðangri Hafrannsóknastofnunar sem lauk á dögunum.

Farið var í leiðangurinn á skipinu Dröfn RE-35, að því er fram kemur á vef Hafró. Farið var á fjögur svæði; Breiðafjörð, Faxaflóa, Vestmannaeyjar að Vík og Ingólfshöfða. Þetta er fimmta árið sem farið er í slíkan leiðangur en markmiðið er m.a. að meta breytingar í stofnstærð og afla upplýsinga um styrk árganga hjá sandsíli.

Á vef Hafró segir að þessar fyrstu niðurstöður séu háðar óvissu því þær séu eingöngu byggðar á lengdarmælingum á síli en ekki á aldurslesningum. Vöxtur á milli ára sé breytilegur hjá síli og einnig sé mikill breytileiki í lengd eftir aldri innan árs og milli svæða. Á næstu mánuðum fara fram aldursgreiningar á sýnum ársins og frekari úrvinnsla.

Mikil þörf á nýliðun

„Uppistaðan í sandsílaaflanum sumarið 2010 var 3 ára síli, af 2007 árgangi, en þessi árgangur hefur verið ríkjandi í stofninum síðastliðin 3 ár. Eins og eðlilegt má telja hefur hins vegar gengið verulega á hann undanfarin ár. Í fyrra fannst talsvert magn af seiðum en þau eru ekki að skila sér í stofninn nú sem eins árs síli, í þeim mæli sem væntingar stóðu til. Sömuleiðis virðist 2008 árgangurinn slakur sem þýðir að mikil þörf er núna á góðri nýliðun ef stofninn á ekki að gefa enn frekar eftir. Í nýloknum leiðangri fékkst ívið meira af seiðum en í fyrra, langmest í Faxaflóa og lítið eitt í Breiðafirði, en mjög lítið við Suðurströndina. Ekki er mögulegt að draga öruggar ályktanir um nýliðun í stofninn út frá seiðafjölda ársins, en styrkur árgangsins kemur endanlega í ljós á næsta ári,“ segir m.a. á vef Hafrannsóknastofnunar.

Þar segir ennfremur að ástand í stofni sandsílis var breytilegt á milli svæða í sumar. Í Breiðafirði fékkst nokkuð af seiðum, lítið eitt af eins árs síli og enn minna af tveggja ára og eldra sandsíli. Lítið fannst af sandsíli út af Ólafsvík en aðeins meira fékkst við norðanvert Öndverðarnes. Ástandið var skást í Faxaflóa af þeim svæðum sem voru skoðuð. Fjöldi seiða sem þar fékkst var með mesta móti og einnig var þar meira af eins árs síli en á hinum svæðunum.

Þriggja ára síli voru ráðandi á öllum svæðum nema í Breiðafirði. Við Vík og Ingólfshöfða fékkst lítið af yngra síli en þriggja ára sandsíli var mest áberandi þar. Í fyrra sýndi svæðið við Vestmannaeyjar örlítil batamerki en ástandið núna er mjög svipað og þá, nema hvað færri seiði fengust núna, segir á vef Hafró en um borð í Dröfn voru Valur Bogason og Kristján Lilliendahl. Skipstjóri var Gunnar Jóhannsson.

Sandsíli
Sandsíli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert