Kona á miðjum aldri sem stöðvuð var fyrir of hraðan akstur á Snæfellsnesvegi rétt vestan við Borgarnes síðdegis í gær gaf þær skýringar að hún væri að drífa sig heim til að leggja sig af því að hún væri orðin svo þreytt.
Bíll konunnar mældist á 122 kílómetra hraða.
Aðstæður voru góðar til aksturs, samkvæmt upplýsingum lögreglumanns í Borgarnesi, en allt af geyst farið. Benti hann á að viðbrögðin ættu að vera þveröfug þegar fólk fyndi til þreytu við akstur, það er að stöðva bílinn og leggja sig í fimmtán mínútur.
Fimm aðrir ökumenn voru stöðvaðir vegna hraðaksturs í umdæmi lögreglunnar í Borgarnesi síðdegis í dag.