Fimm ráðherrar sem setið hafa í ráðherranefnd vegna Magma málsins hittast á morgun ásamt formönnum og varaformönnum þingflokka Samfylkingar og VG auk fulltrúa flokkanna í iðnaðarnefnd. Fundurinn fer fram í forsætisráðuneytinu á hádegi.
Ráðherrarnir fimm eru Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra.
Aðrir sem boðaðir eru á fundinn eru Guðfríður Lilja Grétarsdóttir formaður þingflokks VG, Atli Gíslason þingmaður f.h. VG í iðnaðarnefnd, Skúli Helgason formaður iðnaðarnefndar og varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar og Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður þingflokks Samfylkingarinnar.
Gera má ráð fyrir fjörlegum umræðum á fundinum á morgun en bæði Guðfríður Lilja og Atli hafa sagt að þau geti ekki stutt ríkisstjórn sem ekki kemur í veg fyrir sölu á hlut í HS orku til Magma.
Skúli Helgason hefur lýst því yfir að hann efist um lögmæti samnings HS Orku og Reykjanesbæjar um nýtingarrétt á orku og að nýtingartímann beri að stytta um helming.