Gæti ógnað ríkisstjórninni

Frá Suðurnesjum.
Frá Suðurnesjum. mbl.is/Ómar

„Það kemur bara í ljós. Ég veit ekkert um það. Það er fimm manna ráðherranefnd sem er að vinna í málinu og maður bíður bara eftir þeirri niðurstöðu. Ég nenni ekki að tala í ef eða kannski. Það kemur í ljós,“ segir Atli Gíslason, þingmaður VG, aðspurður hvort Magma-málið ógni lífi stjórnarinnar.

„Það er grundvallaratriði í stefnu Vinstri grænna að auðlindirnar séu í þjóðareign. Það er líka í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þannig að ég tala bæði fyrir stefnu Vinstri grænna og samstarfsyfirlýsingunni. Það kemur skýrt fram þar að auðlindirnar eiga að vera þjóðareign.“

Forsenda samstarfsins

- Þannig að þetta er forsenda þess að þið styðjið ríkisstjórnina?

„Já. Fyrir mér er það. Þetta er algert grundvallaratriði,“ segir Atli sem kveðst styðja heilshugar þá skoðun flokkssystur sinnar Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur að hún geti ekki stutt ríkisstjórnina nema fallið verði frá samningnum.

„Hún talar út frá mínu hjarta.“

Atli segir grasrót flokksins hafa lýst yfir „megnri óánægju með að auðlindirnar skuli vera að fara í einkaeign“.

Spurður hvort hann telji að herferð Bjarkar Guðmundsdóttur söngkonu eigi þátt í þeim aukna þunga sem verið hefur í málinu síðustu daga segir Atli ekki fráleitt að ætla svo. „Það kann mjög vel að vera. Ég útiloka það ekki.“ 

Gagnrýnir stjórnsýsluna 

Atli segir þolinmæði stuðningsmanna VG á þrotum.

„Það hafa líka komið fram nýjar upplýsingar sem gera þetta að verkum. Stjórnsýslan í kringum þessa nefnd er ekki góð.“ 

Spurður hvort hann sé sammála Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra um að rifta beri samningum við Magma Engery kveðst Atli fremur vilja tala um ógildingu í þessu efni, enda sé samningurinn ólögmætur og ógildur.

„Þetta er ekki spurning um riftun heldur er þetta ógildur samningur. Hann stenst ekki lög um erlendar fjárfestingar né heldur reglur um Evrópska efnahagssvæðið, að menn fari bakdyramegin inn í svæðið.“ 

Atli heldur áfram og bætir því við að stofnun skúffufyrirtækis í Svíþjóð um starfsemi Magma Energy sé „málamyndagerningur og markleysa“. 

Atli Gíslason.
Atli Gíslason. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka