Meirihluti er fyrir góðum aðildarsamningi við Evrópusambandið á Alþingi að mati Árna Páls Árnasonar félagsmálaráðherra. „Það er bjargföst skoðun mín að það sé meirihluti fyrir góðum samningi,“ segir Árni Páll sem kveðst ekki geta lagt mat á hvort aukinn stuðningur sé við aðild á Alþingi.
Líkt og fréttavefur Morgunblaðsins hefur greint frá lítur Össur svo á að stuðningur við aðild hafi farið vaxandi í þingsölum Alþingis, stöðumat sem Árni Páll kveðst ekki geta tjáð sig um þar sem hann hafi ekki rætt málið sérstaklega við þingmenn annarra flokka að undanförnu.
Árni Páll vildi heldur ekki tjá sig um þau ummæli Sigurðar Kára Kristjánssonar, aðstoðarmanns formanns Sjálfstæðisflokksins, að Össur væri með ummælum sínum að tala til forystumanna ESB í Brussel fremur en að segja satt og rétt frá stöðunni á Íslandi.