4,3 milljarðar ofgreiddir í tryggingabætur

mbl.is/Árni Torfason

Heildarniðurstöður endurreiknings á lífeyri og tengdum bótum hjá Tryggingastofnun ríkisins liggja nú fyrir. Alls fengu 11 þúsund bótaþegar of mikið greitt, samtals 4,3 milljarðar króna, og 5 þúsund bótaþegar fengu of lítið greitt, samtals 1,7 milljarðar.  Heildarfjárhæð endurreiknaðs lífeyris og tengdra bóta er um 47 milljarðar króna.

Greiðslur til lífeyrisþega á árinu 2009 hafa verið bornar saman við tekjuáætlanir og skattframtal fyrir sama ár. Niðurstaðan segir til um hvort lífeyrisþegi hafi fengið greitt út í samræmi  við þann rétt sem hann hafði á árinu 2009. 

Að sögn Tryggingastofnunar er fjöldi lífeyrisþega rúmlega 47 þúsund manns. Ellilífeyrisþegar eru um 30 þúsund og örorkulífeyrisþegar  um 17 þúsund. 66% lífeyrisþega eða 31 þúsund manns fengu greiðslur innan eðlilegra frávika.  24% lífeyrisþega eða 11 þúsund manns  fengu ofgreiðslur umfram eðlileg frávik. 10% lífeyrisþega eða 5 þúsund manns eiga inneignir umfram eðlileg frávik.

Tryggingastofnun segir, að eins og undanfarin ár sé munurinn lítill á milli atvinnu- og lífeyrissjóðstekna í tekjuáætlunum 2009 og í skattframtali. Hins vegar hafi vextir, verðbætur og arður verið verulega vanáætluð í tekjuáætlunum lífeyrisþega, eða um 75%. Það sé megin skýringin á ofgreiðslum lífeyris og tengdra bóta vegna ársins 2009 en um 22 þúsund lífeyrisþegar, sem fengu vexti og verðbætur greindu ekki frá þeim í tekjuáætlunum.

Af 4,3 milljarða króna ofgreiðslum vegna ársins 2009 eru um 3,3 milljarðar  vegna fjármagnstekna, en um 1 milljarður vegna atvinnu- og lífeyrissjóðstekna (0,4 atvinnutekjur og  0,6  lífeyrissjóðstekjur).

Næstu daga fá  lífeyrisþegar sent bréf með niðurstöðum uppgjörsins. Í því bréfi eru jafnframt upplýsingar frá ríkisskattstjóra um breytingar sem hafa orðið á tekjum innan ársins 2009.

Niðurstöður uppgjörs verða aðgengilegar fyrir lífeyrisþega á þjónustuvef Tryggingastofnunar, tryggur.is, eftir kl. 15 á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert