Skortur er á blóði í Blóðbankanum og hvetur bankinn blóðgjafa að gefa sig fram.
Í tilkynningu frá Blóðbankanum hvetur hann blóðgjafa til að koma við í bankanum sínum áður en þeir fara í frí og gefa blóð. „Birgðir af blóði í O blóðflokkunum eru lægri en þurfa þykir og sérstaklega vantar O Rhesus negativt blóð, en slíkt blóð þarf ætíð að vera til taks í bráðatilvikum og slysum. O Rhesus negatívt blóð er jafnframt mikið notað fyrir nýbura, ungabörn og fyrir sjúklinga af sama blóðflokki. “
Blóðbankinn hvetur sérstaklega virka blóðgjafa til að koma í þessari viku. Nýir blóðgjafar eru hvattir til að koma fremur á öðrum tímum, vegna mikils annríkis þessa viku. Allar aðrar vikur eru nýir blóðgjafar velkomnir að skrá sig sem blóðgjafa.
Blóðbankabíllinn er ekki á ferðinni fyrr en í lok ágúst. Líkt og undanfarin ár er hann ekki í ferðum yfir sumartímann vegna sparnaðaraðgerða.
Blóðbankinn er ábyrgur fyrir allri söfnun og vinnslu blóðs hér á landi. Á Íslandi eru 10.000 virkir blóðgjafar. Árlega er safnað rúmlega 15.000 einingum heilblóðs.
Núna í aðdraganda verslunarmannahelgar er sérlega mikilvægt að eiga nægilegar blóðbirgðir, og því mun Blóðbankinn á Snorrabraut lengja afgreiðslutíma sinn, sem verður eftirfarandi þessa viku:
mánudagur 26. júlí 11-19
þriðjudagur 27. júlí 08-17
miðvikudagur 28. júlí 08-17
fimmtudagur 29. júlí 08-19
föstudagur 30. júlí 08-12
Blóðbankinn er ennfremur með starfsstöð á Akureyri