Jónas Kristjánsson, fyrrverandi forstöðumaður Árnastofnunar, er nýlega kominn heim úr vikulangri rannsóknarferð til Vínlands í Norður-Ameríku, þar sem hann hefur verið að kanna slóðir Íslendinga.
„Ég hef verið að leita að rústum eftir norræna menn á Vínlandinu góða. Sérstaklega Þorfinn karlsefni og hans leiðangur. Hann ætlaði að nema land þarna og var í þrjú ár, en hvarf þá í burtu af sérstökum ástæðum,“ segir Jónas en Þorfinnur karlsefni mun hafa reist búðir í firði sem nefndur var Straumsfjörður.
Jónas fór ásamt syni sínum, Kristjáni Jónassyni stærðfræðiprófessor í Háskóla Íslands, Bjarna F. Einarssyni og Þór Hjaltalín, fornleifafræðingum, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.