Sagður skulda 8.500 milljarða

Landsbankanum reiknaðist til að Davíð hefði sveiflað korti sínu hressilega.
Landsbankanum reiknaðist til að Davíð hefði sveiflað korti sínu hressilega.

Kvikmyndagerðarmanninum Davíð Jónssyni brá heldur betur í brún er hann skoðaði yfirlitið á einkabankanum sínum hjá Landsbankanum í vikunni. Taldist hann til neysluglaðari manna hjá bankanum enda hljóðaði síðasta færsla upp á hvorki meira né minna en 8.500 milljarða króna.

Upphæðin er stjarnfræðileg en til samanburðar var þjóðarframleiðslan á Íslandi í fyrra um 1.500 milljarðar króna.

„Ég náttúrulega bjóst ekki við þessu. Ég var ekki búinn að eyða svona miklum pening,“ segir Davíð um reynslu sína.

- Hvernig brást bankinn við?

„Ég fékk fyrst samband við gjaldkera og hún virtist líka fara í nett sjokk. Hún varð hreinlega kjaftstopp í stutta stund. Hún fór svo og ræddi við yfirmann sinn og kom síðan til baka og sagði að þau myndu kippa þessu í lag innan skamms.“

- Hvað myndirðu gera við þessa peninga, ef þú ættir þá?

„Ætli maður myndi ekki bara borga Icesave-skuldina,“ segir Davíð á gamansömum nótum en hann hefur lifibrauð af framleiðslu sjónvarpsefnis og tónlistar.

Davíð starfar hjá fyrirtækinu Skottafilm í Skagafirðinum en hann segist aðspurður myndu framleiða epíska mynd á Íslandi, ef til vill út frá Grettissögu, hefði hann svo digra sjóði að sækja í við listsköpun sína.

Á vefnum Pressan.is var birtur hluti af reikningsyfirliti Davíðs þar sem skuldin var sýnd og þar kom fram að FIT-kostnaður vegna yfirdráttar var 11,2 milljónir króna. 

Davíð Jónsson kvikmyndagerðarmaður.
Davíð Jónsson kvikmyndagerðarmaður.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert