Sendiherra þakkar Íslendingum

Luis Arreaga.
Luis Arreaga.

Luis Arreaga, nýr sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, þakkaði Íslendingum fyrir framlag sitt í alþjóðlegri neyðaraðstoð, þegar hann kom fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings sl. fimmtudag. Þar þakkaði hann jafnframt þeim Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, og Hillary Clinton utanríkisráðherra fyrir það traust sem þau hafi sýnt sér, til að gegna stöðu sendiherra á Íslandi.

Arreaga, sem fæddist í Gvatemala, benti á að íslenskar björgunarsveitir hafi sent alþjóðasveit sína til aðstoðar við jarðskjálftana  í Tyrklandi, Alsír, Marokkó og núna síðast hafi hún farið til Haíti. Íslenska alþjóðasveitin hafi verið ein af fyrstu sveitunum sem hafi komið til Haíti og hún hafi verið komin innan sólarhring frá því skjálftinn reið yfir. 

Þá segir Arreaga í ávarpi sínu að Bandaríkin séu sérstaklega þakklát Íslendingum fyrir að flytja bandaríska ríkisborgara og þegna frá Haíti eftir hörmungarnar.

Þá kemur fram í ávarpi Arreaga að hann hafi starfað lengi hjá bandarísku utanríkisþjónustunni. Hann hafi m.a. unnið í Rómönsku-Ameríku, Evrópu og Kanada. 

Hann segir að Ísland sé mikilvægur bandamaður Bandaríkjanna og að þjóðirnar hafi svipað gildismat. Frelsi, sjálfstæði, nýsköpun og dugnaður einkenni Íslendinga líkt og Bandaríkjamenn.

Hann bendir á að Íslendingar hafi stuðlað að friði og stöðugleika í heiminum. Ríkið sé eitt þeirra fyrstu sem hafi stofnað NATO og Íslendingar hafi tekið þátt í friðargæslustörfum. 

Íslendingar hafi nýverið ítrekað stuðning sinn við hersveitir bandarmanna í Afganistan, þrátt fyrir erfitt efnahagsástand á Íslandi.

Þrátt fyrir að Bandaríkjaher hafi yfirgefið Ísland árið 2006 starfræki NATO mikilvæga ratsjárstöð á Íslandi.

Þá segir Arreaga að viðskiptatengsl ríkjanna séu mikil. Bandarísk álfyrirtæki séu fjárfesti mikið hér á landi. Fjárfestingar muni aukast með nýjum tækifærum í orkugeiranum, þ.e. á sviði jarðvarma og vatnsorku. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert