Stríðið gæti tapast

Svo gæti farið að alþjóðaherliðið undir forystu Bandaríkjahers bíði ósigur í Afganistan, að mati Michaels T. Corgan, dósents í alþjóðasamskiptum við Boston-háskóla. Corgan telur að Obama forseti hafi ekki bolmagn til að sannfæra bandarískan almenning um að fara út í aðgerðir sem tryggt gætu sigur. 

- Gætum við horft fram á ósigur alþjóðaherliðsins í Afganistan, líkt og Sovétríkin á sínum tíma? 

„Já. Það eru miklar líkur á ósigri. Með ósigri á ég við að talibanar tækju aftur við stjórn mála í Afganistan og að Pakistan haldi áfram að fylgjast  með þróuninni í landinu með öðru auga,“ segir Corgan, sem tók þátt í Víetnamstríðinu á sínum tíma sem ráðgjafi í bandaríska sjóhernum.

Geta ekki haldið úti sama herliði að óbreyttu

- Liam Fox, varnarmálaráðherra Bretlands, greindi frá því um helgina að skera þyrfti niður í breska hernum. Gæti sú staða komið upp eftir tíu ár eða svo að Bretland og Bandaríkin hafi ekki lengur sama slagkraft til að heyja stríð gegn hryðjuverkum með sama hætti og undanfarin ár?

„Við getum ekki viðhaldið sama umfangi í hryðjuverkastríði og við höfum gert með þeim fjármunum sem við höfum nú úr að spila. Við erum enn að verja fé til varnarmála eins og við værum stödd í kalda stríðinu. Það er verið að verja miklu fé í vopn sem ólíklegt er að verði nokkru sinni notuð í alvöru hernaði [...] Umfangsmikið hryðjuverkastríð myndi kalla á opinskáa umræðu um hversu kostnaðarsamt það yrði.

Slík umræða myndi kalla á það kalda stöðumat að við erum ófær um að heyja slíkt stríð með hernum eins og hann lítur út núna [...] Ég sé ekki að nokkur stjórnmálaleiðtogi í Bandaríkjunum, að Obama meðtöldum, sem myndi líklega ekki ráða við verkefnið, njóti þeirrar virðingar og stöðu hjá bandarísku þjóðinni að geta stuðlað að þeirri viðhorfsbreytingu hjá almenningi gagnvart stríðinu sem koma þyrfti til ætti á annað borð að fara út í slíka opinskáa umræðu. Við gætum enn haft „sigur“ í Afganistan en aðeins með því að greiða hann mun dýrara verði en haldið hefur verið að almenningi til þessa,“ segir Corgan og vísar til umtalsverðrar fjölgunar í herliðinu og stóraukins fjárstuðings til Afganistans.

Sömu mistök og í Víetnam

Hann tekur þó fram að hægt sé að vinna stríðið gegn talibönum, sigur sem sagan sýni að kunni að útheimta vopnaða baráttu í minnst hálfan annan áratug.

Corgan telur að Bandaríkjaher sé um margt að gera sömu mistökin í Afganistan og í Víetnam, með vísan til þess að hernum hafi gengið illa að sannfæra afganskan almenning um ágæti stríðsrekstursins, vandamál sem meðal annars megi rekja til skorts á liðsmönnum sem tali mál heimamanna.

Einnig skorti heimamenn tilfinningu fyrir því að Bandaríkjaher sé kominn til að vera þegar mikilvæg héruð í Afganistan séu annars vegar.

Þá skorti stjórn Hamids Karzai trúverðugleika í augum margra Afgana sem líti svo á að hún hafi ekki umboð frá allri þjóðinni.

Hefur óveruleg áhrif á stuðning við Obama

Corgan hefur eins og aðrir áhugamenn um varnarmál vestanhafs kynnt sér nýbirtar upplýsingar úr leyniskjölum um stríðsreksturinn sem hulunni hefur verið svipt af.

Aðspurður hvort þessar upplýsingar muni veikja Obama forseta bendir Corgan á að gögnin nái aftur um sex ár eða til miðbiks síðara kjörtímabils George W. Bush forseta, sem var eins og kunnugt er forseti á árunum 2001 til 2009. Af þeim sökum geti repúblikanar ekki skellt skuldinni á demókrata.

Þvert á móti renni gögnin stoðum undir þá túlkun að innrásin í Írak hafi dregið athygli og fjármagn Bandaríkjahers frá Afganistan á viðkvæmum tímapunkti.

Styrkti talibana í sessi

Það hafi aftur komið niður á hernaðinum í síðarnefnda ríkinu, túlkun sem Corgan kveðst hafa haldið á lofti í nokkurn tíma.

„Gögnin sýna að við vorum í stríði en gátum ekki lokið því. Þetta styrkti talibana í sessi um leið og það virkaði letjandi á ríki sem höfðu stutt við hernað Bandaríkjahers í landinu. Þau sáu að Bandaríkjunum var ekki full alvara með stríðsrekstrinum [...] Við greiðum nú þessi mistök dýru verði.“

- Hversu þungt vegur það sjónarmið í opinberri umræðu í Bandaríkjunum í dag að Íraksstríðið hafi verið truflun sem dró úr slagkrafti hersins í Afganistan?

„Ég tel að það eigi nú meiri hljómgrunn en áður þar sem við getum nú litið yfir farinn veg og rifjað upp að það voru engin gereyðingarvopn í Írak og engin tengsl á milli talibana og Saddams Hussein. Við getum nú séð í baksýnisspeglinum að Íraksstríðið skilaði ekki miklu en hafði þau áhrif að beina fjármunum í aðra átt.

Þetta sjónarmið mun hins vegar ekki hafa áhrif á skoðanamyndun þess fimmtungs bandarísku þjóðarinnar sem styður öll stríð,“ segir Michael T. Corgan.

Hermaður alþjóða herliðsins í Panjwai-héraði í Afganistan fyrr í sumar.
Hermaður alþjóða herliðsins í Panjwai-héraði í Afganistan fyrr í sumar. Reuters
Michael Thomas Corgan fæddist í Pittsburgh í Pennsylvaníu 1941. Hann …
Michael Thomas Corgan fæddist í Pittsburgh í Pennsylvaníu 1941. Hann lauk BS-prófi í skipaverkfræði frá Akademíu bandaríska sjóhersins 1963, MPA-prófi frá Washington-háskóla 1975 og doktorsgráðu í stjórnmálafræði frá Boston-háskóla 1991. Michael starfaði fyrir sjóherinn frá 1963-1988. Hann hefur fengist við ýmis fræðastörf, síðast sem dósent í alþjóðasamskiptum við Boston-háskóla frá 1996. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert