Ekkert óeðlilegt við tölvupóst

The Reykjavik Grapevine slær málinu upp á forsíðu.
The Reykjavik Grapevine slær málinu upp á forsíðu.

„Ég myndi segja það eðlilegt þegar stjórnvöld eru að fara að kynna stórmál að þau vilji að fókusinn sé á aðalatriðunum og það er einmitt sem ég var að leggja til með þessum upplýsingum. Þetta eru aðalatriði málsins,“ segir Elías Jón Guðjónsson, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, um tölvupóstmálið.

Elías Jón komst svo að orði er hann var inntur eftir þeirri túlkun Grapevine á innanhúspósti hans sem lekið var til fjölmiðla að hann væri að reyna að stýra fjölmiðlaumfjöllun um Magma-málið, með vísan til orðalags bréfsins.

Hann lýsir tölvuskeytinu svo:

„Þetta voru drög að tölvupósti sem átti að vera svar við öðrum tölvupósti sem mér barst varðandi yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Ég kommenta á þær með því að segja *****fínt og velti því síðan upp hvernig við ættum að kynna þetta. Ég kemst síðan að því að það hafi haft við mig samband blaðamaður sem vildi fá upplýsingar fyrir blaðamannafundinn. [Ég] legg til að það gæti kannski verið heppilegt að láta honum þessar upplýsingar í té sem er kjarninn í því sem var kynnt. Ég held að þetta hafi ekki haft nein áhrif á fréttaflutning í dag því að frétt með nákvæmlega sömu upplýsingum var þá þegar búin að birtast á Vísi [visir.is] án þess að hún hafi verið komin frá mér.“

- Hver er umræddur „Doddi“ sem þú vísar til?

„Það er nafn á manni.“

- Hvað segirðu um þá túlkun Grapevine að viðtakandinn hafi átt að vera Steingrímur J. Sigfússon?

„Nei. Hann var augljóslega ekki viðtakandinn. Grapevine virðist hafa fengið póstinn. Þessi póstur var aldrei sendur, ekki af minni hálfu. Þannig að ég átta mig ekki alveg á því hvernig hann komst út. En hann var ekki ætlaður Steingrími.“

Fullvíst þykir að umræddur Doddi sé Þórður Snær Júlíusson, blaðamaður Viðskiptablaðsins, en ýtarleg frétt um ákvörðun stjórnvalda í Magma-málinu eftir Þórð Snæ birtist á vef blaðsins um 45 mín. áður en aðrir fjölmiðlar höfðu sömu upplýsingar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka