Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra telur ekki vera djúpa gjá milli stjórnarflokkanna í Magma-málinu. „Þegar málið er krufið efnislega þá er ekkert svo langt á milli flokkanna í málinu. Við viljum tryggja að orkuauðlindir séu í opinberri eigu,“ segir Katrín.
Hún segir vinnu hafa verið í gangi í ráðherranefnd sem fjallað hafi um orku-, auðlinda- og atvinnumál, en svo virðist sem ekki allir þingmenn VG hafi vitað af því að sú vinna stæði yfir. Hún er ekki hlynnt því að samningurinn verði gerður ógildur enda myndi það kosta óhemjumikla fjármuni. „Ég er sjálf ekki fylgjandi þeirri leið. Ég hef trú á að ríkisstjórnin nái saman um málið,“ segir Katrín.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir formaður þingflokks VG, sem í gær sagðist ekki geta stutt ríkisstjórnina nema hún ógilti Magma-samninginn, vildi ekki tjá sig um fundi gærdagsins um málið í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. „Málið er í vinnslu og vinna við það heldur áfram á morgun.“