Farið er að bera á laxadauða í Norðurá vegna súrefnisskorts. Á vef Stangveiðifélags Reykjavíkur er haft eftir leiðsögumönnum við Norðurá, að ástandið sé orðið alvarlegt. Lax eigi á hættu að fá ekki nægjanlegt súrefni og svo heitt hafi verið í Norðurárdal langtímum saman að undanförnu að áin nái ekki að kólna.
Áin er nánast að
þorna upp og segir SVFR að ástandið minni á þurrkana sumarið 2007. Það sé þó öllu verra nú, að áin nái ekki að kólna á milli á næturnar líkt og gerðist
fyrir þremur árum, og því séu menn að fara út í 17-18 gráðu vatnshita á
morgnana.
Ekki hefur veiðst lax neðan við Víðinesfljót í 3 daga sem bendir til að lax gangi ekki upp í ána. Ofar er farið að bera
á laxadauða og hefur dauður lax fundist dauður í nokkrum
hyljum.
Spáð er rigningu á svæðinu um helgina og vonast veiðimenn til að það gangi eftir.
Hollið sem er nú við veiðar hefur veitt sjö laxa á tveimur dögum en veitt er á
tólf stangir í Norðurá.