Sláturfélag Suðurlands verður með óbreytt verð til bænda fyrir lambakjöt þegar í sláturstíðin hefst í haust. Þetta kemur fram í fréttabréfi SS þar sem fjallað er um haustslátrun. Verðið hækkaði hins vegar á síðasta ári.
SS er fyrsta fyrirtækið til að tilkynna um verð á kjöti í sláturtíðinni í haust. Búist er við að þetta verð gefi vísbendingar um hvað aðrir sláturleyfishafar ætli að gera.
Sláturleyfishafar hafa fengið sem nemur 35,25 kr/ kg greitt frá Bændasamtökunum í vaxta- og geymslugjald. Þessir fjármunir munu nú fara beint til bænda en ekki í gegnum afurðaverðið hjá sláturleyfishöfum
og lækkar afurðaverð því sem þessu nemur. Þetta þýðir óbreytt afurðaverð til bænda.
Í fréttabréfinu segir að mikil verðsamkeppni sé á kjötmarkaðnum. Meðalsöluverð SS sé t.d. það sama fyrir kindakjöt frá hausti 2009 og árið 2008. Það þýði að sú hækkun sem varð til bænda í fyrra með því að greiða innanlandsverð fyrir útflutning og kostnaðarauki vegna hækkunar á sláturkostnaði hafi ekki náðst í söluverði og afkoma af sölu kindakjöts
af þeim sökum slök.
Flytja þarf út um 30% framleiðslunnar. Það hefur hjálpað útflutningnum að krónan hefur verið veik, en hún er núna heldur að styrkjast.
Í verðskrá SS er tekin upp sú nýbreytni að afurðaverðið er breytilegt eftir tímabilum, hæst fyrstu
vikur sláturtíðarinnar en lækkar svo er líður á sláturtíðina. Verðið fer
úr 110% af fullu verði niður í 96%.
Á vef sauðfjárbænda segir að sauðfjárbændur séu að verða fyrir kjaraskerðingu. Bent er á að verðbólga mælist nú 5,7% á ársgrunni.
Beingreiðslur til bænda munu einungis hækka um 2% á þessu ári. Til
viðbótar er óvissa um mótframlag ríkisins til Lífeyrissjóðs bænda og
tryggingargjald hefur hækkað verulega síðustu misseri. Þetta þýðir
kjaraskerðingu fyrir sauðfjárbændur á næstu misserum.