„Mér sýnast þetta vera pólitísk leiktjöld,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, aðspurður um álit sitt á fyrirhugaðri rannsókn stjórnvalda á Magma-málinu. Vilhjálmur telur málið skaðlegt fyrir ímynd Íslands sem fjárfestingarkosts erlendis.
„Mér finnst þetta alls ekkert eiga við í kaupum Magma á HS Orku,“ segir Vilhjálmur um rannsóknina og kynningu stjórnvalda á henni, með vísan til þess að málið sé þegar afgreitt.
„Þetta mál hefur verið rætt mörgum sinnum áður. Þetta hefur snúist um hvað á að gilda varðandi eignarhald á orkuauðlindunum sjálfum og síðan spurninguna um nýtingarréttinn og framleiðsluna á orkunnni.
Ég lít svo á að málið og [umræða um] skipan þessara mála sé afgreitt varðandi nýtingu auðlindanna, eignarhald á þeim og aðskilnað á nýtingunni og eignarhaldi þeirra.“
- Hvað finnst þér þá um þessa „sjálfstæðu og óháðu rannsókn“ svo vitnað sé í tilkynningu stjórnvalda?
„Mér sýnast þetta vera pólitísk leiktjöld [...] Síðan er þetta spurning um stöðu okkar skuldbindinga gagnvart EES-samningnum. Síðan er mjög sérstakt að ríkisstjórnin er alltaf að koma fram með mál sem eru að tefja það að hér geti farið í gang alvöru hagvöxtur.“
- Hvaða áhrif heldurðu að þetta geti haft á áhrif Íslands erlendis?
„Mjög slæm áhrif.“
- Hefurðu skynjað það í samskiptum við erlenda aðila?
„Já. Ég hef gert það. Það er ekki aðeins Magma heldur líka Century [Aluminum] sem er að reyna að byggja álverið í Helguvík og fleiri erlendir aðilar. Menn klóra sér í kollinum og spyrja hvort það sé einhver möguleiki á því hvort að hægt sé að eiga viðskipti við skynsama menn hér á landi, þar sem eitthvað stendur frá degi til dags,“ segir Vilhjálmur Egilsson.
Rökstuðning stjórnvalda fyrir síðasta skrefi í málinu má nálgast á vef forsætisráðuneytisins.