Fréttaskýring: Ríkið getur ekki rift samningnum

Forsvarsmenn Magma Energy og HS Orku kveða samninga sína lögmæta …
Forsvarsmenn Magma Energy og HS Orku kveða samninga sína lögmæta og ríkið ekki geta rift samningum á milli tveggja fyrirtækja. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra kemur til fundar um Magma í gær. mbl.is/Jakob Fannar

Forsvarsmenn Magma Energy og HS Orku segjast ekki sjá hvernig hið opinbera eigi að geta stöðvað kaup Magma Energy á hlut Geysis Green Energy í HS Orku.

Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku, kveðst ekki vita til þess að nokkur leið sé hinu opinbera fær nema að setjast aftur að samningaborðinu við fyrirtækin eða að beita eignarnámi.

„Ég er nú ekki lögfræðingur en mér vitanlega er engin leið til þess nema bara þjóðnýting. Þetta er allt gert, eins og ég skil það, samkvæmt lögum og gildandi reglum. Það er ekkert nema að setja lög um þjóðnýtingu,“ segir Júlíus sem telur þannig eignarnám einu mögulega leið ríkisvaldsins til að eignast nýtingarrétt Magma Energy á auðlindunum.

Að íslenskum rétti er eignarréttur stjórnarskrárvarinn. Í 72. gr. hennar eru þó upptalin skilyrði eignarnáms en þau eru þríþætt. Almenningsþörf þarf að krefjast eignarnáms, setja þarf sérstök lög um eignarnámið og fullt verð þarf að koma fyrir eignina.

Þeir lögfræðingar sem Morgunblaðið hefur talað við kveða ríkið ekki geta rift samningnum og nýtingarrétt Magma Energy á tiltekinni auðlind ekki uppfylla skilyrði stjórnarskrárinnar um almenningsþörf til eignarnáms.

Fínt fyrirkomulag

Ásgeir Margeirsson, forstjóri Magma Energy á Íslandi, telur móðurfélagið vilja halda auðlindinni í almannaeigu. „Magma finnst það fínt fyrirkomulag, mjög eðlilegt og gott, að auðlindirnar séu í almannaeigu og þær séu leigðar. Það er bara í fínu lagi,“ segir Ásgeir sem kveðst ekki átta sig á því hvernig ríkisstjórnin eigi að ógilda eða rifta samningum um Magma Energy.

„Katrín Júlíusdóttir hefur réttilega bent á það að ríkisstjórnin er ekki aðili að þessum samningi. Samningurinn sé milli tveggja fyrirtækja og þess vegna geti ríkisstjórnin ekki rift samningnum. Atli Gíslason hefur bent á að það eigi ekki að rifta heldur ógilda, ég veit ekki hvernig það á að gerast, ég hef ekki þekkingu á því. Þetta er bara samningur sem er samkvæmt lögum.“

Vill beita eignarnámi

Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, telur að ríkið eigi að taka hlut Magma Energy eignarnámi reynist samningarnir ekki ólögmætir. „Hann gengur gegn tilgangi laga um erlenda fjárfestingu og gengur líka gegn EES-reglum. Ef það gengur ekki þá vil ég bara að þessi hlutur sé tekinn eignarnámi með sérlögum eða hvernig sem það mál virkar,“ segir Atli sem kveðst viss um ólögmæti samningsins og telur sænska fyrirtækið málamyndagerning til að komast hjá EES-reglum.

„Þetta er alger málamyndagerningur bara til þess að fara framhjá ákvæðum laga og markmiði þeirra. Það er ólögmætt og slíkir samningar hafa ekkert gildi,“ segir Atli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert