Telur söluna á HS Orku ólöglega

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is/Ómar

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, segist ekki í vafa um að kaup Magma á HS Orku hefðu verið ólögleg og því þyrfti að vinda ofan af því. Þetta kom fram í morgunútvarpi Rásar 2. Sagðist Ögmundur binda vonir við það ferli sem málið er komið í.

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði á Rás 2, að ef í ljós kæmi, að ágóðinn af samningum Magma og Íslendinga renni annað en til Íslands verði að spyrna við fótum og tryggja að Íslendingar njóti góðs að sínum auðlindum.

Ögmundur sagði að þjóðfélagið væri að vakna af martröð undangenginna ára og til vitundar um að tryggja yrði eignarhald Íslendinga yfir auðlindum sínum. Sagðist Ögmundur styðja að sett yrði heildstæð löggjöf um það. Ég vona að ríkisstjórnin beri gæfu til þess að reka myndarlegt smiðshögg á það verk," sagði Ögmundur og bætti við að ríkisstjórnin standi og falli með því hvort henni takist að standa vörð um auðlindirnar í landinu og velferðarkerfið.   

Sigurður Kári sagðist telja að það væri á mörkunum að nú væri stjórn í landinu og Vinstri grænir væru greinilega búnir að fá nóg af yfirgangi Samfylkingarinnar. Það væri alvarlegt því öll orkan færi í að lækna innanmein innan ríkisstjórnarflokkanna í stað þess að leysa brýn verkefni við stjórn landsins. 

Sigurður Kári Kristjánsson.
Sigurður Kári Kristjánsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert