„Magma málið er enn einn atburðinn þar þar sem ríkisstjórnarsamstarfinu virðist ógnað af þröngum hópi þingmanna Vinstri grænna sem virðist eiga erfitt með að vera í ríkisstjórnarsamstarfi. Það sem er nýtt í þessu er að Þuríður Backmann er komin inn í þennan hóp en hefur ekki verið þar áður.“
Þetta segir Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri í samtali við Morgunblaðið.
Hann telur, líkt og iðnaðarráðherra lýsir yfir í Morgunblaðinu í dag, að ekki sé mikill ágreiningur milli flokkanna í málinu. "Í grunninn eru þessi flokkar ekki ósammála um eðli þessa máls, þetta er frekar spurning um hvort eigi að bakka út. Hópur innan VG vill ganga mjög langt í málinu og virðist vilja fara mjög hratt í einhvers konar hugmyndafræðilegt uppgjör við kapítalismann og við þjóðfélagið eins og það var fyrir hrun."
Þarf ekki að valda stjórnarslitum
Spurður að því hvort hann telji stjórnarsamstarfið vera í hættu segist hann ekki hafa trú á að Magma málið felli stjórnina. "Ég er ekki viss um að þetta mál muni valda stjórnarslitum. Það þarf 3-4 þingmenn til og ég er ekki sannfærður um að svo margir yrðu til í að fella þessa ríkisstjórn. En samningaviðræður í ríkisstjórn fyrir opnum tjöldum í fjölmiðlum hljóta að valda samstarfsþreytu til lengdar," segir Grétar Þór.