Í skriflegri yfirlýsingu, sem Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, lagði fram á ríkjaráðstefnu í Brussel í dag, segir að í aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins verði að tryggja forræði Íslands yfir sjávarauðlindum og sjálfbæra nýtingu þeirra.
„Þetta mætti t.d. tryggja með því að skilgreina efnahagslögsögu Íslands sem sérstakt stjórnsvæði þar sem íslensk stjórnvöld halda áfram að bera ábyrgð á stjórnun fiskveiða. Að auki verður að standa vörð um meginregluna um hlutfallslegan stöðugleika til þess að tryggja að við fáum okkar hluta úr deilistofnum. Einnig verðum við að huga gaumgæfilega að því hvernig fiskveiðistjórnun aðlagast breytingum á því mynstri sem fiskistofnar fylgja vegna umhverfisbreytinga," segir í yfirlýsingunni.
Þar segir einnig, að sameiginleg sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins hafi verið mótuð til að þjóna sameiginlegum hagsmunum. „Henni var ekki ætlað að hindra ESB-aðild mikilvægra fiskveiðiþjóða. Samningaviðræður við Ísland eru því tækifæri til þess að sýna fram á að hægt sé að finna sameiginlegar lausnir."