Stefan Fule, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, sagði á blaðamannafundi, í Brussel, að mikilvægt væri að umræða um Evrópusambandið byggðist á staðreyndum en ekki goðsögn. Það væri hins vegar Íslendinga að kynna hvað Evrópusambandið hefði upp á að bjóða.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði við upphaf fundarins að fyrst þegar hann kom til Brussel til að ræða við Olla Rehn, fyrrverandi stækkunarstjóra, hefði hann verið spurður hvort flugvélin hefði verið sein. Össur sagðist hafa svarað að hún hefði ekki verið sein, en Ísland væri 10 árum of seint á ferðinni með umsókn sína.
Össur sagðist vera sannfærður um að ef Ísland hefði gengið í ESB fyrir fimm árum síðan hefði efnahagslíf Íslendinga ekki hrunið með þeim skelfilegu afleiðingum sem það hefði haft fyrir þjóðina.
Össur var spurður hvernig hann ætlaði að sannfæra Íslendinga um að rétt væri að samþykkja inngöngu í ESB. Össur minnti á lengi vel hefði verið meirihlutastuðningur við aðildarumsókn á Íslandi. Þetta hefði hins vegar breyst árið 2009 þegar kom til harðra deilna milli Íslands annars vegar og Bretlands og Hollands hins vegar. Hann sagði líka að reynslan sýndi að þegar þjóðir lentu í kreppu þá hefðu þær tilhneigingu til að horfa inn á við. Hann benti á að þetta hefði líka gerst í Króatíu þar sem stuðningur við aðild hefði fallið niður í 27% á skömmum tíma.
Steven Vanackere, utanríkisráðherra Belgíu, sagði enga ástæðu til að vera upptekinn af því hvenær viðræðunum lyki. Aðalatriðið væri að hefjast handa og taka þann tíma sem þyrfti til að ljúka viðræðum. Viðræðurnar snerust ekki um stundaskrá heldur um líf fólks og því þyrfti að vanda til verka.