Vestmannaeyjabær greiðir fyrir aukaferð Herjólfs

Herjólfur í mynni Landeyjarhafnar.
Herjólfur í mynni Landeyjarhafnar. mbl.is/RAX

Bæjarráð Vestmannaeyja hefur samþykkt, að greiða kostnað við aukaferð Herjólfs í vetur á meðan samgönguráðuneytið er að meta reynslu af siglingu skipsins milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar. „Við höfum ekki efni á að láta tækifærin sigla framhjá okkur," segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Eyjum. 

Vestmannaeyjabær fór fram á það við ráðuneytið í maí, að ferðum Herjólfs milli lands og Eyja verði fjölgað um 125 á ári, úr 1360 í 1485.  Kostnaður vegna þessa viðbótarferða er áætlaður  18 milljónir og buðust  Vestmannaeyjabær og Eimskip til að greiða 66,6% af þeim kostnaði.

Í bréfi, sem samgönguráðuneytið hefur sent Vestmannaeyjabæ, segir að ráðuneytið telji ekki tímabært að taka afstöðu til þessarar óskar enda séu engar fjárveitingar á fjárlögum til þess. Ráðuneytið muni þó taka málið til skoðunar þegar reynsla hefur fengist af siglingu skipsins milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar.

Í samþykkt bæjarráðs Vestmannaeyja í dag, segir, að verði ferðunum ekki fjölgað muni Herjólfur einungis sigla 3 ferðir á dag yfir vetrartímann og fyrstu farþegar því ekki komnir til Vestmannaeyja fyrr en um 13.  Þar með séu möguleikar til samnýtingar þjónustu milli lands og Eyja, svo sem framhaldsskóla, sjúkrahúss, félagsþjónustu og fl. verulega skertir. 

Elliði sagði, að ákveðið hefði verið að bærinn greiði þann kostnað, sem ella hefði fallið á ríkið, á meðan reynslan af siglingunum milli Eyja og Landeyjahafnar er metin.

„Fyrstu dagar siglinga í Landeyjahöfn sýna svo ekki verður um villst að þörfin fyrir tíðar ferðir er mikil en fyrstu 5 dagana ferðuðust 8110 farþegar með Herjólfi milli lands og Eyja," segir í bókun bæjarráðs.   „Bæjarráð ítrekar það sem áður hefur komið fram um að það séu ferðir Herjólfs sem eru samgöngur við Eyjar, ein og sér skilar Landeyjahöfn ekki bætum samgöngum." 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert