Ríkisstjórnin ætlar að „vinda ofan af" Magma máli

Steingrímur og Jóhanna á blaðamannafundi í stjórnarráðinu í dag.
Steingrímur og Jóhanna á blaðamannafundi í stjórnarráðinu í dag. mbl.is/Ernir

„Það er ásetningur ríkisstjórnarinnar að vinda ofan af einkavæðingu í orkugeiranum og tryggja að orkufyrirtæki séu í eigu opinberra aðila," sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á blaðamannafundi sem nú stendur yfir í Stjórnarráðinu.

Forsætisráðherra skipar sérstaka nefnd til að rannsaka einkavæðingaferli Hitaveitu Suðurnesja og einnig verður gerð lögfræðileg úttekt á lögmæti þess, að Magma Energy keypti  HS Orku gegnum dótturfyrirtæki í Svíþjóð. Á nefndin að skila niðurstöðum fyrir miðjan ágúst.

„Þetta er grundvallarstefnubreyting stjórnvalda í auðlindamálum," sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um ákvörðun ríkisstjórnarinar. 

Lagt verður fram nýtt frumvarp í október í samræmi við niðurstöðu starfshóps ráðherra um eignarhald á mikilvægum orkufyrirtækjum og takmarki eignarhald einkaaðila.

Endanleg afstaða til kaupanna ekki tekin enn

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sendi í dag HS Orku og Magma Energy Sweden AB bréf þar sem upplýst er að á vegum stjórnvalda sé að fara af stað sjálfstæð og óháð rannsókn sem lúti að lögmæti kaupa Magma Energy Sweden AB á hlutafé í HS Orku. Jafnframt að ráðuneytið hafi upplýsingar um að kvörtun hafi verið send vegna málsins til umboðsmanns Alþingis.

Þá hafi ríkisstjórnin ákveðið að sett verði af stað vinna sem miði að endurskoðun á lagaumhverfi er varðar eignarhald á orkufyrirtækjum, þ. á m. takmörkunum á eignarhaldi einkaaðila. Málið sé til pólitískrar skoðunar og stefnumótunar en slík skoðun kunni að hafa áhrif á framtíðarstöðu opinberra jafnt sem einkaaðila á sviði orkumála.

Í bréfinu kemur fram, að ríkisstjórnin sé staðráðin í því að vinda ofan af einkavæðingu innan orkugeirans og tryggja eftir megni að mikilvægustu orkufyrirtæki landsins séu á forræði opinberra aðila.

Efnahags- og viðskiptaráðherra og ríkisstjórnin hafi ekki tekið endanlega afstöðu til fjárfestingar Magma Energy Sweden  á hlutafé í HS Orku en séu nú að yfirfara framtíðar rekstrar- og lagaumhverfi fyrirtækja í orkugeiranum. 

Tilkynning forsætisráðuneytisins



 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert