Flak breska olíuskipsins SS Shirvan, sem þýskur kafbátur sökkti árið 1944, er fundið. Sjómælingaskip Landhelgisgæslunnar fann flakið eftir að ábending barst frá sjómönnum um að eitthvað kynni að leynast á hafsbotni, skammt undan Garðskaga.
Fyrir rúmu ári síðan var sjómælingaskipið við leit að flaki Goðafoss og fann þúst, sem talið var að tilheyrði Shirvan. Á þriðjudaginn fékkst það staðfest.
Notast var við íslenskan kafbát við leitina að flakinu, en það liggur á um hundrað metra dýpi. Af myndum kafbátarins að dæma hefur skipið brotnað í þrjá hluta og er illa farið.
Shirvan var grandað í sömu árás og Goðafoss, þann 10. nóvember 1944. Skipið villtist af leið sökum óveðurs og lenti í klóm þýsks kafbáts sem grandaði því með tundurskeyti. Mannlaust skipið rak í ljósum logum út á sjó uns það sökk til botns. Þar hefur það legið í felum gegnum árin og ekki fundist fyrr en nú.