Guðbjörg M. Matthíasdóttir, aðaleigandi Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, greiðir hæstu skatta í ár rétt tæpar 343 milljónir króna. Ingi Guðjónsson, lyfjafræðingur í Kópavogi, er í 2. sæti og greiðir um 198 milljónir og Þorsteinn Hjaltested Vatnsendabóndi er í 3. sæti og greiðir tæpar 120 milljónir króna.
Tveir fyrrum bankastjórar Íslandsbanka, þeir Lárus Welding og Bjarni Ármannsson, eru í 17. og 18. sæti. Greiðir Lárus
57,3 milljónir í opinber gjöld og Bjarni 55, 7 milljónir.
Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda 2010 á einstaklinga. Er það fyrsta álagningin eftir sameiningu skattumdæma sem kom til framkvæmda við síðustu áramót. Ríkisskattstjóri leggur nú fram álagningarskrá en áður lögðu 9 skattstjórar fram hver sína skrá.
Á skattgrunnskrá voru rösklega 261.000 framteljendur. Af þeim sættu 13.750 einstaklingar áætlunum eða 5,26% af skattgrunnskrá. Álagningarskrár liggja frammi á skattstofum fram til 11. ágúst 2010 en kærufrestur rennur út 27. ágúst.