Evrópureglur eru hlutlausar gagnvart eignarhaldi á orkufyrirtækjum, viðkomandi ríki getur sjálft skipað þeim málum, að sögn Elviru Méndez Pinedo, sérfræðings í Evrópurétti. Hún var meðal framsögumanna á opnum borgarafundi Attac-samtakanna í Iðnó í kvöld. Á annað hundrað manns sótti fundinn.
„Allar náttúruauðlindir Íslands eiga að vera í almannaeigu og allur arður af þeim á að ganga óskiptur til þjóðarinnar,“ var yfirskrift fundarins en kaup Magma Energy á HS Orku voru í forgrunni í framsöguerindum. Iðnaðarráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra var boðið að taka þátt í pallborðsumræðum. Þau höfðu „öðrum hnöppum að hneppa,“ upplýsti Benedikt Erlingsson fundarstjóri og voru sæti þeirra því auð.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Attac-samtakanna á Íslandi, sagði að krafan væri að orkufyrirtækin yrðu tekin af markaði og samningur Magma ógiltur. Jón Þórisson, einn fundarboðenda, sagði að markmiðið hefði verið að vekja umræðu um einkavæðingu orkunnar, áður en það væri orðið of seint. Ríkisstjórnin hefði leikið biðleik en óvist væri um endanlega niðurstöðu málsins.