Segir of snemmt að fara í ESB

Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur.
Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur. Þorkell Þorkelsson

„Mín ágiskun er sú að það verði jafn erfitt að fá Ísland inn og það er þessa dagana að fá íslensku laxana til að taka í uppþornuðu ánum,“ segir Uffe Ellemann-Jensen, fyrrum utanríkisráðherra Dana þar sem hann lætur gamminn geysa á bloggi sínu á vef Berlingske Tidende um það hvort Ísland gangi í Evrópusambandið.

Er bloggið skrifað í gær í kjölfar frétta um formlegar aðildarviðræður milli Íslands og ESB. Má af því ráða að hann telji Íslendinga í þrjóskari kantinum sem túlki málin á sinn séríslenska máta.

Ellemann-Jensen talar þó um ásteytingarsteina sem hægt verði að leysa með góðum vilja. Þar séu fiskveiðarnar stærsta málið en ekki megi heldur gleyma hvalveiðunum. Þær telji Íslendingar innanríkismál sem komi öðrum ekki við. Hann tæpir einnig á landbúnaðinum sem sé niðurgreiddur út í gegn af ríkinu en það hljóti að finnast lausn þar á.

Séríslensk túlkun á Icesave

Ábyrgð Íslendinga á Icesave reikningunum sem Hollendingar og Bretar borguðu sé óleyst vandamál. Gerður hafi verið samningur um endurgreiðslu sem þjóðin hafi fellt í þjóðarkvæðagreiðslu. Málið sé því enn óleyst og þar komi líka til hin séríslenska túlkun. Ellemann-Jensen vísar til samræðna sem hann átti við ónefndan íslenskan stjórnmálamann og hefur eftir honum: „Það gat auðvitað hver maður séð að það var algjörlega óábyrgt að leggja sparifé sitt í banka í landi sem hefur aðeins 300.000 íbúa...“

Ellemann Jensen segir Íslendinga ekki komast langt á þessari hugsun og þeir þurfi að kunna að taka á sig skyldu í alþjóðasamfélaginu. Vandamálið sé hins vegar að flestir stjórnmálamenn hafi fest sig í þeirri hugsun að landið hafi ekki efni á að borga og því óviðeigandi af umheiminum að óska eftir greiðslu.

Þá telur hann Morgunblaðið undir stjórn Davíðs Oddssonar vera í fararbroddi andstöðu við ESB. Það hafi auk þess verið Davíð sem hafi sagt að aðeins Íslendingar fengju tap sitt í bankahruninu greitt og þar með vakið reiði Breta. Þetta hafi gengið gegn reglum EES og   þegar Bretar hafi beitt hryðjuverkalöggjöfinni hafi Íslendingar enn tekið það sem sönnun þess að umheimurinn vildi þeim ekki vel.

Telur aðild Íslands að ESB ótímabæra

Þegar andrúmsloftið er svona eindregið gegn aðild er erfitt að trúa því að af aðild verði segir Ellemann Jensen og segist ekki sjá tilgang í að fá leyfi til viðræðna þegar ljóst sé að Íslendingar munu fella málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann sé hins vegar til í að fá bæði Ísland og Noreg með í ESB þegar tíminn sé réttur. Ísland eigi ekki að sækja um aðild bara út á efnahagslegan ávinning. Íslendingar eigi að vera með þegar þeir trúi á Evrópuverkefnið og vilji vera hluti af því. Þegar þeir skilji að með því séu þeir ekki að afsala sér sjálfstæði og þar gætu Danmörk, Svíþjóð og sérstaklega Finnland lagt sitt af mörkum út frá eigin reynslu.

Uffe Ellemann-Jensen þekkir vel til á Íslandi. Hann hefur oft  komið til landsins í laxveiði og skrifað bókarkafla og greinar um laxveiði á Íslandi.

Bloggið má finna hér: http://uffeellemann.blogs.berlingske.dk/2010/07/27/island-bliver-vanskelig-at-fa-pa-krogen/

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka