„Þessi hindrun að baki“

Vegurinn inn í Bása er aftur orðinn fær jeppum að sögn Skúla H. Skúlasonar, framkvæmdastjóra Útivistar, en búið er að beina Krossánni frá veginum. „Þá er þessi hindrun að baki,“ segir Skúli í samtali við mbl.is.

Mbl.is greindi frá því í gær að áin væri við það að taka landið við Álfakirkju. Menn yrðu þá að fara yfir ána til að komast inn í Bása.

Skúli segir að beltagrafa hafi verið send á staðinn. Upp úr hádegi hafi hún verið búin að beina ánni í annan farveg.

Hann segir að Krossá hafi verið vatnsmikil í allt sumar. Ekki sé það vegna úrkomu, þar sem lítið hafi rignt á svæðinu í sumar. Líklega sé það vegna íss sem hafi bráðnað undir þunnu öskulagi sem liggi yfir Mýrdalsjökli.

Öskulagið sem liggi yfir Eyjafjallajökli sé þykkara og þannig einangrist ísinn og dragi úr bráðnum. „Þess vegna eru árnar sem koma undan Eyjafjallajökli litlar.“

Hann bendir á að aðrar ár hafi ekki verið slæmar það sem af sé sumri. 

Skúli segir að það sé mat manna að það sé nauðsynlegt að ráðast í umfangsmeiri framkvæmdir með haustinu til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert