Gerir ómögulegt að vera í EES

Þórólfur Matthíasson
Þórólfur Matthíasson

Áform framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) um breytt fyrirkomulag til að tryggja bankainnistæður mun gera Íslandi ókleift að eiga aðild að Evrópska efnahagssvæðinu (EES), að því er Þórólfur Matthíasson prófessor sagði í samtali við ABC Nyheter fréttastofuna.

Fréttastofan ræddi við Þórólf vegna frétt ABC Nyheter frá því í gær um innistæðutryggingarnar. Mbl.is sagði frá þeirri frétt í gær. Markmiðið með breytingunum er að innistæðutryggingasjóður eigi að geta bætt innistæður fari meðalstór banki í tilteknu landi á hausinn.

Hugmyndir eru uppi um að bankar greiði 1,5% af samanlögðum innistæðum í tryggingasjóðinn.  Við gjaldþrot verði sótt til viðbótar 0,5% af innistæðum í bönkunum sem eftir standa. Loks eigi að afla sem svarar 0,5% með útgáfu skuldabréfa. Þetta samsvarar 2,5% af öllum bankainnistæðum.

Þórólfur segir m.a. í samtali við ABC Nyheter að reglan um 2,5% geti ekki gilt um Ísland. Hann bendir á smæð þjóðarinnar og uppbyggingu fjármálakerfisins. Hér verði tveir til þrír stærri bankar og nokkrir litlir sparisjóðir. 

Stærsti bankinn hér geti haft um 35% markaðshlutdeild, sá næststærsti um 25%. Innistæðutryggingasjóður gæti tryggt innstæður í hinum litlu bönkunum, að mati Þórólfs. 

Hann segir jafnframt að eigi innistæðutryggingasjóðurinn að duga fyrir bankakerfið í heild þá verði hann að ráða við að tryggja innistæður í einum af stóru bönkunum. Þá nægi ekki 2,5% af öllum innistæðum í landinu heldur þurfi til þess 25-50% af öllum innistæðum í íslenskum bönkum.

Þórólfur útskýrir að samkeppnissjónarmið leyfi ekki samruna tveggja stóru bankanna.  Ísland sé ekki nógu stórt markaðssvæði. Fengju bankarnir frjálsar hendur þá sætu Íslendingar uppi með einn banka, að mati Þórólfs.

Hann segir að gengi Ísland í ESB þá gætu Íslendingar skipt við erlenda banka. Erlendir bankar hafi verið tregir til starfsemi hér m.a. vegna óvissu varðandi verðtryggingu. Þeir hafi ekki viljað læra á íslenska lagaumhverfið og treysti ekki íslenska kerfinu.

Þá segir Þórólfur að samkeppnisumhverfi íslensku bankanna hefði verið allt annað  ef Íslendingar hefðu haft evru fyrir gjaldmiðil.

„Niðurstaðan er sú að Ísland getur þá ekki verið með í EES, en gæti verið í ESB og tekið upp evruna. Lítill gjaldmiðill eins og sá íslenski á engan sess í þeim heimi sem við lifum í með frjálsa fjármagnsflutninga og þessi stóru gjaldmiðlasvæði,“ hefur ABC Nyheter eftir Þórólfi Matthíassyni.  

Hann segir að þriðji valkosturinn sé að Ísland segi sig úr EES og haldi sig við eigin gjaldmiðil með ströngum gjaldeyrishöftum og auknum tollum á útflutningi. Ísland var með fríverslunarsamning við ESB, með EES fékk Ísland aukna kvóta fyrir tollfrjálsan útflutning til ESB og lægri tolla, að sögn Þórólfs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert