Hvalfjarðargöngin fá falleinkunn hjá Samtökum þýskra bíleigenda (ADAC) sem könnuðu öryggismál í 26 jarðgöngum í Evrópu. Samtökin segja að fern göng hafi fengið rauða spjaldið. Hvalfjarðargöngin komi hins vegar verst út af þeim.
Ný jarðgöng í Frakklandi, sem eru skammt frá París, komu best út í könnuninni hvað varðar öryggismál. ADAC segir að þau setji í raun nýtt viðmið.
ADAC segir aftur á móti að Hvalfjarðargöngin standist ekki þær öryggiskröfur sem menn geri í Evrópu. Ljóst sé að úrbóta sé þörf, enda göngin á botninum skv. könnuninni.
Þeir þættir sem koma verst út úr könnuninni er viðbúnaður ef neyðartilvik koma upp, viðbrögð við eldi, flótta- og útgönguleiðir og loftræsting í göngunum. Fram kemur, að ekkert sjálfvirkt viðvörunarkerfi sé í Hvalfjarðargöngum, sem þýði, að loka þurfi göngunum handvirkt og hringja á slökkvilið ef eldur kemur upp og þannig geti dýrmætur tími tapast.
Aðstæður í 16 göngum eru sagðar mjög góðar, góðar í fernum og viðunandi í tvennum. Könnunin var gerð í 13 Evrópulöndum undir merkjum EuroTap (European Tunnel Assessment Programme).
Fram kemur jafnframt, að aðstæður í mörgum jarðgöngum í Evrópu séu þannig, að þau muni ekki geta uppfyllt nýjar evrópskar öryggisreglur, sem taka gildi árið 2014.
Algengustu ágallarnir, sem taldir eru á evrópskum jarðgöngum, eru að þar skorti hátalara svo hægt sé að vara ökumenn við slysum, skortur sé á brunahönum og lýsing oft léleg.
Auk Hvalfjarðarganganna náði úttektin til jarðganga í Austurríki, Belgíu, Króatíu, Tékklandi, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi, Noregi, Slóveníu, Spánar og Sviss.