Ísland sat hjá í atkvæðagreiðslu SÞ um vatn

Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York.
Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York. Reuters

Ísland var eitt þeirra ríkja, sem sátu hjá þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gærkvöldi, eftir 15 ára umræður, tillögu  sem kveður á um að aðgangur að hreinu vatni teljist til mannréttinda.

Alls greiddu 122 aðildarríki atkvæði með tillögunni og ekkert var á móti en 41 ríki sat hjá, þar á meðal Bandaríkin, Bretland, Kanada og Ástralía auk Íslands.  Danir og Svíar sátu einnig hjá en Norðmenn og Finnar greiddu atkvæði með ályktuninni.

Samþykktin er ekki lagalega bindandi fyrir aðildarríki SÞ, frekar en mannréttindayfirlýsing SÞ er sjálf þó hún virðist almennt höfð til viðmiðunar þegar mannréttindi ber á góma.

Í ályktuninni eru ríki SÞ og alþjóðastofnanir hvattar til að útvega fjármagn og stuðla að byggingu mannvirkja, einkum í þróunarríkjum, til að tryggja öllum aðgang að hreinu og ódýru drykkjarvatni og hreinlætisaðstöðu.

Þá er áhyggjum lýst af því, að 884 milljónir manna hafi ekki aðgang að öruggu drykkjarvatni og 2,6 milljónir skorti hreinlætisaðstöðu.  Allt að 1,5 milljónir barna deyi árlega vegna þess að þau skorti vatn og hreinlætisaðstöðu. 

Tilkynning SÞ um samþykkt ályktunarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka