Landsbankamenn með léleg laun

Geirmundur Kristinsson fyrrverandi sparisjóðsstjóri hjá Sparisjóðsins í Keflavík var með …
Geirmundur Kristinsson fyrrverandi sparisjóðsstjóri hjá Sparisjóðsins í Keflavík var með 20,4 milljónir á mánuði í laun. Ljósmynd/Víkurfréttir

Fyrrverandi stjórnendur og eigendur Landsbankans greiða skatta af launum hér á landi sem eru rétt rúmlega 200 þúsund á mánuði. Margir stjórnendur fjármálafyrirtækja eru hins vegar með nokkrar milljónir í laun á mánuði.

Þetta kemur fram í tekjublaði Frjálsar verslunar sem kom út í dag. Í blaðinu er birtur listi yfir laun um 350 manna sem starfa eða störfuðu í fjármálageiranum. Sá sem er með hæstu launin er Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri hjá Sparisjóði Keflavíkur, en sjóðurinn komst í þrot fyrr á þessu ári. Hann var með 20,4 milljónir í laun á mánuði samkvæmt listanum.

Næstur á eftir honum er Óttar Pálsson, forstjóri Straums, með um 11,3 milljónir í laun á mánuði. Þar á eftir kemur Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, með um 10,8 milljónir á mánuði. Fjórði á listanum er William Fall, fyrrverandi forstjóri Straums, með 8,6 milljónir á mánuði.

217 stjórnendur í fjármálageiranum voru með meira en eina milljón í laun á mánuði samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar. 

Fjórir fyrrverandi stjórnendur og eigendur Landsbankans raða sér í neðstu sætin. Þetta eru Sigurjón Þ. Árnason, Björgólfur Guðmundsson, Halldór J. Kristjánsson og Björgólfur Thor Björgólfsson, en laun þeirra voru á bilinu 229-265 þúsund á mánuði. Skammt þar fyrir ofan er Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, með 323 þúsund á mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert