Lítið að marka Moody's

Moody's hefur breytt horfunum fyrir lánshæfismat Íslands úr stöðugum í …
Moody's hefur breytt horfunum fyrir lánshæfismat Íslands úr stöðugum í neikvæðar. Guðmundur Rúnar Guðmundsson

„Þannig að ég gef lítið fyrir pólitískar ályktanir lánshæfismatsfyrirtækjanna. Ég tel að þau starfi almennt ekkert sérstaklega faglega,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknar, aðspurður um þau tíðindi að Moody's skuli afa breytt horfum fyrir lánshæfismat Íslands úr stöðugum í neikvæðar.

Lánshæfisfyrirtækið Moody's rökstyður breytinguna með vísan til þess að talsverð óvissa sé uppi í bankakerfinu í kjölfar dóms Hæstaréttar um gengislánin.  

Sigmundur Davíð setur spurningarmerki við tímasetninguna.

„Í fyrsta lagi finnst mér þetta koma dálítið seint hjá þeim því það hefur einn dómur gengið í millitíðinni frá þessum dómi Hæstaréttar, auk þess sem maður hefur efasemdir um að þeir hafi það alveg á hreinu út á hvað þetta gengur enda eru bankarnir ekki á framfæri ríkisins, þó að reyndar geti komið til þess miðað við það sem ráðherrarnir segja, það er að ríkið myndi hugsanlega setja eitthvað meira fé inn í bankana,“ segir Sigmundur Davíð og vísar til hugmynda um að ríkið komið með aukið fé inn í bankana ef þörf krefur vegna gengisdómsins. 

Trúverðugleikinn farinn

Máli sínu til stuðnings vísar Sigmundur Davíð til nýlegrar greinar í tímaritinu Business Week þar sem þeirri spurningu er varpað fram hvers vegna nokkur maður skyldi enn taka mark á lánshæfismatsfyrirtækjunum eftir kreppuna, í ljósi ráðlegginga þeirra áður en hagpólan sprakk. 

„Mér hafa fundist þau bæði fyrir fjármálakrísuna og í henni miðri og eftir hana sýna fram á það, sem þau hafa verið gagnrýnd fyrir, að þau snúist meira um pólitík en raunverulegar hagstærðir.

Það má þá bera þetta saman við nýlegar fréttir af því að skuldatryggingarálag Íslands hafi ekki verið jafn lágt lengi, enda erum við Íslendingar að flytja út miklu meira en við erum að flytja inn. Þannig að ég gef lítið fyrir pólitískar ályktanir lánshæfismatsfyrirtækjanna. Ég tel að þau starfi almennt ekkert sérstaklega faglega,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka